Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit
Á Hofstöðum í Mývatnssveit er merkileg minjaheild allt frá víkingaöld og fram á þá tuttugustu. Þar er gríðarstór veisluskáli sem er eitt stærsta mannvirki sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Að auki eru þar minni mannvirki sem hvert hafði sitt hlutverk. Nafn jarðarinnar og skálatóftin mikla sem talin var hofið sem bæjarnafnið vísaði til varð til þess að fræðimenn fengu snemma áhuga á staðnum.
Viðamiklar fornleifarannsóknir hafa farið fram um árabil á Hofstöðum, fyrst í upphafi 20. aldar og allt til dagsins í dag. Mörg hundruð manns hafa komið að rannsóknum á Hofstöðum og víðar í Mývatnssveit. Afraksturinn er á annað hundrað ritverk: bækur, fræðigreinar, skýrslur og nemendaritgerðir. Markmið sýningarinnar er fyrst og fremst að kynna hið margþætta ferli sem fornleifarannsókn er. Á þessum langa rannsóknartíma fleygði tækninni fram ekki síst sé litið til síðustu 30 ára eða svo. Aðferðfræði og vinnubrögð hafa tekið stórtækum framförum á öllum sérsviðum sem tengjast fornleifafræði. Framþróunin helst í hendur við fjölgun vísindalegra uppgrafta við Norður-Atlantshaf svo samanburðaefni varð aðgengilegra.
Ferlið hvernig hugmyndir, vitneskja og túlkun á fortíðinni breytist sést greinilega í langtímarannsókn eins og á Hofstöðum. Á sýningunni eru kynnt nokkur rannsóknarþemu sem skarast: Landið og nýting þess, miðstöðin Hofstaðir, daglegt líf, mataræði og fjölskyldan. Teflt er fram hvernig mismunandi sérsvið hafa leitast við að svara spurningum um þessi þemu. Sýningarefnið er því bæði fornleifarnar á Hofstöðum og fornleifarannsóknirnar á Hofstöðum. Sýningin er samstarfsverkefni Fornleifastofnunar Íslands ses. og Þjóðminjasafns Íslands.