Sérkenni sveinanna
Af hverju heitir Askasleikir Askasleikir? Á jólasýningu Þjóðminjasafnsins er sett upp jólahús með gripum sem tengjast jólasveinunum. Börnin mega snerta gripina sem geta hjálpað þeim að skilja nöfn jólasveinanna.
Á aðventunni og fram á þrettándann gefst börnum kostur á að kynnast sérkennum jólasveinanna með því að sjá og þreifa á hlutum sem tengjast heiti hvers þeirra um sig. Hlutum eða myndum sem einkenna klæki þeirra og kenjar er komið fyrir við þil sem minnir á burstabæina gömlu. Þarna er til dæmis askur fyrir hann Askasleiki, skyr fyrir Skyrgám og göngustafur fyrir Stekkjarstaur.
Vísur Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana og háttu þeirra eru til hliðsjónar.