Eldri sýningar

Silfur Íslands

  • 24.2.2013 - 31.12.2014
  • Silfur Íslands

Loftverk, víravirki, stappa, sandsteypa, gylling, gröftur, kerasmíð, drifsmíð... allt eru þetta hugtök sem notuð voru um verk silfursmiða. Á sýningunni er lögð áhersla á að útskýra þessar fjölþættu aðferðir.

Gripirnir sem hér eru sýndir eru smíðaðir á Íslandi, þeir elstu á 16. eða 17. öld, hinir yngstu á miðri 20. öld og voru til prýðis á heimilum fólks, á klæðnaði og í kirkjum. Þrátt fyrir fábreyttar aðstæður í landinu bera þeir allir fegurðarskyni og listsköpun glöggt vitni. Silfurgripir voru smíðaðir eftir pöntun og sá sem pantaði varð að útvega smíðaefnið. Algengast var að gamlir gripir eða úr sér gengnir væru bræddir til smíðanna en nokkuð var um að silfurpeningar væru nýttir sem hráefni. Þótt talað sé jöfnum höndum um gull- og silfursmíði er um eitt og sama handverkið að ræða en hér var nánast alfarið smíðað úr silfri.

Gripirnir á sýningunni eru margir og mismunandi; búningasilfur, borðbúnaður, kaleikar og silfurskildir. Hönnuðir Silfur Íslands eru Steinunn Sigurðardóttir og Páll Hjaltason.

 Hér má nálgast frekari upplýsingar um gripi sýningarinnar og aðferðir við silfursmíði: Ítarefni - Silfur Íslands (PDF - 980Kb)