Eldri sýningar

Sögustaðir - í fótspor W.G. Collingwoods

  • 13.5.2010 - 23.1.2011, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Á sýningunni má sjá ljósmyndaverk eftir Einar Fal Ingólfsson, sem unnin eru með hliðsjón af vatnslitamyndum, teikningum og ljósmyndum sem breski myndlistarmaðurinn og fornfræðingurinn William Gershom Collingwood málaði og tók af stöðum sem koma fyrir í Íslendingasögunum á tíu vikna ferðalagi um Ísland sumarið 1897.

Síðustu þrjú ár hefur Einar Falur notið leiðsagnar Collingwoods á ferð sinni milli íslenskra sögustaða. Hann hefur farið milli staða þar sem breski listamaðurinn vann og stuðst við myndverk hans og skrif.

W.G. Collingwood kom til landsins til að mála myndir af stöðum sem koma fyrir í Íslendingasögunum og um leið skapaði hann merkar heimildir um íslenskan samtíma sinn. Í ljósmyndum Einars Fals verður til samtal þriggja tíma; samtíma áhorfandans í dag, samtíma Collingwoods árið 1897 og sögualdarinnar, sem Bretinn hyllti í myndverkum sínum.

Á sýningunni í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands má sjá úrval ljósmynda Einars Fals og að auki hluta þeirra rúmlega 300 verka sem Collingwood málaði hér á landi, en ríflega helmingur myndanna frá ferð hans eru varðveittar í Þjóðminjasafninu.

Í samnefndri bók, sem Þjóðminjasafn Íslands og Crymogea gefa út, birtast enn fleiri myndir úr verkefninu, auk ítarlegs texta ljósmyndarans um verkefnið, ljósmyndun, málaralist, ferðalagið og tímann.