Spessi 1990-2020
Samtímaljósmyndarinn Spessi - Sigurþór Hallbjörnsson - hefur skapað sér einstakan stíl á sviði fagurfræðilegrar ljósmyndunar. Í verkum hans birtist iðulega blákaldur veruleikinn, ekkert fegrað og ekkert dregið undan sama hvort myndefnið er manneskjan eða umhverfið. Kimar samfélagsins í samtvinningi við menningarlífið eru áberandi í verkum hans. Val hans og efnistök eru gjarnan ögrandi en samtímis gædd mannúð og kímni.
Spessi er fæddur árið 1956 á Ísafirði. Þangað hefur hann sótt innblástur í mörg verk eins og sést í myndaröðunum Hetjur og Úrtak. Nýjasta verkefni hans C19 var einnig tekið í heimabæ hans. Spessi nam ljósmyndun við AKI – Akademie voor Beeldende Kunst í Hollandi og útskrifaðist þaðan árið 1994. Ljósmyndir og vídeóverk hans hafa birst á fjölmörgum einkasýningum og samsýningum hér á landi og erlendis m.a. í Hollandi, Svíþjóð, Finnlandi, Lettlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi.
Ferill Spessa spannar meira en 30 ár og á yfirlitsýningu hans má sjá þær ótal sögur sem birtast í verkum hans. Stoltar hvunndagshetjur, einmana bensíndælur, yfirgefin rými, beygluð byltingarvopn, byssueigendur, blokkaríbúar og listamenn, sumir vandræðalegir aðrir sjálfsöruggir.
Verk Spessa eru spegill á íslenskt samfélag og fela í sér mikilvæga samfélagsrýni.
Listamaður: Spessi, spessi.com
Sýningastjóri: Linda Ásdísardóttir
Umfjöllun fjölmiðla: "Einhver lína í gegnum þetta allt" Morgunblaðið 27. 3. 2021
Hin hrjúfa fegurð Spessa. Menning á RÚV 12. 4. 2021
Ég vil sýna hlutina eins og þeir eru. Fréttablaðið 1. 4. 2021
Blákaldur veruleiki Spessa. Stundin 7. 4. 2021
Spessi. Víðsjá 25.3.2021
Sir Arnar Gauti. Hringbraut 8. 4. 2021
Ljósmyndasýningin Spessi 1990 - 2020. Bæjarins besta 21. 4. 2021
Lestrarklefinn. 14. 5 2021