Sporlaust - ljósmyndir Katrínar Elvarsdóttur
Á sýningunni Sporlaust voru til sýnis ljósmyndir Katrínar Elvarsdóttur.
Katrín setur í myndum sínum á svið litla sögu þar sem fylgjast má með nokkrum börnum sem virðast ein á ferð úti í skógi. "Hugmyndin kom frá málverki sem ég var með í herberginu mínu þegar ég var lítil en það var málverk af Hans og Grétu að ganga eftir skógarstíg," sagði Katrín um myndirnar.
Katrín myndar ekki raunveruleikann í þeim skilningi að hún sé að taka myndir af einhverju ákveðnu fyrirbæri. Hún tók ekki myndir af börnum úti í skógi, jafnvel þótt börnin væru vissulega af holdi og blóði og sagan sviðsett úti í náttúrunni innan um raunveruleg tré og skógarstíga. Hún hvorki myndskreytti sögu né setti á svið "lifandi myndir" heldur setti hún sig á skjön við raunveruleikann og bjó til einkaheim eða handanveröld, fremur eins og kvikmyndaleikstjóri en ljósmyndari.
Katrín hafnar viðteknum skilningi á ljósmyndinni sem tæki til að skrá og rannsaka raunveruleikann, hún hafnar þeirri útbreiddu skoðun að ljósmynd sýni "það sem hafi verið," að ljósmyndin sé spegill, spor í sandi eða skuggi í snertingu við tímann. Með titlinum Sporlaust afhjúpaði Katrín skilning sinn og notkun á ljósmyndinni sem myndsköpunaraðferð og tjáningarleið. Myndir hennar eru hugrænar, þær eru cosa mentale, skáldskapur, staður þar sem sögur verða til, svo vísað sé til orða bandaríska listgagnrýnandans Clément Greenberg sem sannspár taldi ljósmyndina hafa náð valdi á þeim frásagnarheimi sem málaralistin hefði yfirgefið.
Katrín lærði ljósmyndun í Boston í Bandaríkjunum og hefur sýnt verk sín bæði austan hafs og vestan. Myndirnar á sýningu Þjóðminjasafnsins voru teknar sumarið 2006 á Ítalíu á frumstæða Holgu plastmyndavél og prentaðar með Giclee tækni.