Eldri sýningar

Story of your life. Ljósmyndir Haraldar Jónssonar.

  • 16.6.2005 - 18.9.2005, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Ljósmyndasyrpa Haraldar Jónssonar, The Story of Your Life, varpaði ljósi á margbrotið eðli ljósmyndarinnar, náin og um leið flókin tengsl hennar við einstaklinginn, raunveruleikann, umhverfið, tímann, frásögnina og minnið. Við fyrstu sýn gæti virst að það sé verið að skrásetja staði, hversdagsleg atvik og nytjahluti, eða sýna sjálfsævisöguleg minningaraugnablik, án samhengis, eins og einkaljósmyndir frá ókunnugum sem maður skoðar í misgripum fyrir sínar eigin.

Innri tími syrpunnar er óljós en amerískur titillinn The Story of Your Life vísar óneitanlega beint til kvikmyndaheimsins, til frásögulegra eiginleika ljósmyndarinnar og þeirrar samsömunar sem verður í huga einstaklingsins andspænis tungumálinu, dæmisögum og myndaflóði hins daglega lífs. Þannig er frásagnarmáti Haraldar og notkun hans á miðlinum bundinn mjög ákveðnu tímabili í sjálfsævisögulegri aðferðarfræði síðustu áratuga 20. aldar, þegar landamæri raunveruleika og ímyndunarafls þurrkuðust út og hið almenna en um leið nánasta í lífinu varð eftirlætis efniviður myndlistamanna og ljósmyndin nærtækasti miðillinn til tjáningar.