Eldri sýningar

Þetta er allt sama tóbakið!

  • 29.9.2011 - 19.2.2012, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á sögu tóbaksnotkunar og baráttuna gegn henni allt frá upphafi á 17. öld fram til um 1990. Til þess eru notaðir gripir og ljósmyndir frá Þjóðminjasafni, gripir og gögn frá Krabbameinsfélaginu og tónlist sem notuð var í baráttunni gegn reykingum.

Í baráttunni gegn reykingum og annarri tóbaksnotkun hefur sú framtíðarsýn oft verið sett fram að muni tengda þessum ósið yrði eingöngu að finna á söfnum. Þó sá árangur hafi ekki enn náðst erum við komin nokkuð á leið. Hrákadallar eru óþekktir og öskubakkar, sem eitt sinn voru stofustáss, er nú helst að finna útivið. Vindlar, tóbaksdósir eða sígarettuhylki þykja ekki lengur viðeigandi tækifærisgjafir.

Á sýningunni er úrval gripa úr Þjóðminjasafni Íslands sem tengjast tóbaksnotkun. Þeir elstu eru frá 17. öld. Í safninu eru fjölmargar tóbakspontur og tóbaksdósir. Þegar leitað er í skrá safnsins, Sarpi, kemur í ljós að samtals eru 220 pontur eða/og dósir í safninu auk annarra gripa, en tóbaksfjalir eru 8 og tóbaksjárnin 24.

Einnig verður litið til baráttunnar gegn tóbaksnotun, en á síðustu áratugum hefur náðst góður árangur ekki hvað síst með því að fræða börn og unglinga um hætturnar sem fylgja tóbaksnotkun.

Tóbak róm ræmir,
remmu framkvæmir,
tungu vel tæmir,
tár af augum flæmir,
háls með hósta væmir,
heilann fordæmir,
og andlit afskræmir.

(Hallgrímur Pétursson)