Eldri sýningar

TÍZKA – kjólar og korselett

  • 22.1.2012 - 2.9.2012, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu
  • Tíska

Á sýningunni eru svokallaðir módelkjólar sem saumaðir voru eftir pöntun og ýmsir fylgihlutir eins og skór, hattar, hanskar og undirföt. Kjólarnir eru listaverk, sumir látlausir og einfaldir aðrir tilkomumiklir og glæsilegir, kjólar sem pössuðu við konuna og tilefnið. Sýningarhöfundur er Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður, en með einstakri innsýn sinni í tískustrauma 20. aldar tekst henni að glæða kjólana á sýningunni nýju lífi. 

Kjólarnir koma úr safni Þjóðminjasafnsins og frá einkaaðilum. Söfnun 20. aldar klæðnaðar hefur verið stunduð um hríð í safninu og þá sérstaklega með áherslu á íslenskt handverk og framleiðslu. Þeir kjólar sem koma frá einkaaðilum voru valdir til að sýna annars vegar tískustraumana og handverkið og hins vegar einstaklingana sem gengu í kjólunum, því módelkjóllinn er ekki fullburða listaverk fyrr en rétta konan er komin í hann.Tizka-syningin-02Kjólarnir á sýningunni endurspegla tískustrauma tímabilsins og sýna svo ekki verður um villst að íslenskar konur voru í takti við það sem gerðist í París, London og New York. Á síðum íslensku blaðanna var ávallt fjallað um tískuna og tískustraumar kynntir vor og haust. En það voru ekki allir á eitt sáttir um tískuna þá frekar en nú. Kvenímynd 6. áratugarins krafðist þess að líkaminn væri mótaður til hins ítrasta og mittið átti að vera þvengmjótt. Korselettið var þá kynnt sem hluti af grunnfataskáp hverrar konu og fjallað var um mikilvægi góðra undirfata í tískutímaritum.

Korselett

TIZKA---korselettVið þekkjum korselettið sem hluta af klæðnaði kvenna um aldir, en eftir fyrri heimstyrjöld var notkun þess nokkuð á undanhaldi með breyttum áherslum í tízku þar sem konur drógu frekar úr kvenlegum línum en ýktu þær. Árið 1947 kynnti Christian Dior fyrstu fatalínu sína sem hlaut nafnið New Look og var korselettið órjufanlegur hluti af henni. Dior lagði áherslu á örmjótt mitti sem ekki varð skapað öðruvísi en með stífu korseletti. Brjóstunum var lyft upp og mjaðmir ýktar, stundaglasvöxturinn var kominn í tízku. Korselett þess tíma voru úr bómull, satíni og stífuð af með teinum úr málmi. Á 6. áratugnum komu síðan gerviefnin til sögunnar og nylon og lycra taka til við að móta konur í anda tískunnar á hverjum tíma.

Hattur úr hattasafni Magneu D. ÞórðardótturTIZKA---hattur

Klæðnaðurinn þótti ekki fullkominn nema fylgihlutirnir pössuðu. Hanskar, taska, skór, hattur og skartgripir, allt varð þetta að ganga upp í eina samfellda heild. Glæsilegur og vandaður hattur var þá eins og punkturinn yfir i-ið.

Litli svarti kjóllinn

Hér er hann kominn, litli svarti kjóllinn sem Coco Chanel kynnti til sögunnar á 3. áratugnum og hefur æ síðan verið grunnflík í fataskáp smekkvísra kvenna. TIZKA---kjoll-i-geymsluÞessi var saumaður um 1960 og minnir á kjólana hennar Jackie Kennedy. Kjóllinn er heimasaumaður og var í eigu Brynhildar Jónsdóttur garðyrkjubónda í Hveragerði.

Eigandi: Björk Snorradóttir

Hér má sjá sjá myndband yfir tíu bestu LSK-augnablikin.

Silkikjóll

TIZKA---stuttur-kjollStuttur, munstraður kjóll úr silki, með yfirdekktum hnöppum. Góður fulltrúi stuttu tískunnar sem var í algleymi á 7. áratugnum. Kjólinn saumaði Dýrleif Ármann á Kristínu Sigurðardóttur.

Eigandi: Kristín Sigurðardóttir.

Síðkjóll

TIZKA---sidkjoll

Skósíður kjóll úr svörtu og gylltu brókaði, líklega saumaður á stríðsárunum. Saumaður á saumastofu Guðrúnar Arngrímsdóttur á Magneu D. Þórðardóttur.

Eigandi: Þjóðminjasafn Íslands

Ljósmyndir Kristjáns Magnússonar frá því snemma á 7. áratugnum.

KM-985-28-ParMyndirnar sýna vel stíl og glæsileika tímabilsins en sé skyggnst undir yfirborðið segja þær líka eitthvað um stöðu kvenna í samfélaginu á þessum tíma. Konan í dansinum er föst í greip mannsins og stúlkan situr í hinni dæmigerðu ritarastellingu og yfirmaðurinn vomir yfir henni með hætti sem í dag þykir óviðeigandi. Vilborg Sigurðardóttir kennari fjallar um starf Rauðsokkahreyfingarinnar í grein sinni „Vitund vaknar – augu opnast“.  Þar vitnar hún í umfjöllun í fyrsta tölublaði rits hreyfingarinnar Forvitin rauð sem kom út árið 1972:

Fjallað var um bækling sem þá var nýkominn út hjá Stjórnunarfélagi Íslands: Einkaritarinn. Rakin eru dæmi úr bæklingnum um hvernig einkaritarinn á að taka að sér hlutverk umhyggjusamrar eiginkonu gagnvart forstjóranum. „Hún er stolt af velgengni hans, en hefur ekki orð á mistökum hans.“ „Hún sýnir honum þolinmæði, lætur honum líða vel í návist sinni.“ „Hún tekur á sig sökina fyrir skekkjur eða villur, sem urðu óvart til, og leiðréttir þær án tafar.“

 KM-1014-22A-23-Skrifstofuda

 Heimild: Vilborg Sigurðardóttir. "Vitund vaknar - augu opnast". KvennaslóðirRit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Reykjavík 2001.