Eldri sýningar

Undrabörn

Ljósmyndir Mary Ellen Mark

  • 9.9.2007 - 3.2.2008, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Á sýningunni gat að líta ljósmyndir sem hinn heimsþekkti bandaríski ljósmyndari Mary Ellen Mark tók af fötluðum börnum á Íslandi. Þessar myndir sýna veruleika barnanna í samtímanum, en Mary Ellen Mark er þekkt fyrir myndir þar sem horfst er í augu við raunveruleikann.

Á sýningunni var sjónum einnig beint að skólaumhverfi barnanna í ljósmyndum Ívars Brynjólfssonar á Veggnum, listsköpun barnanna sjálfra var til sýnis í anddyrinu og kvikmynd Martin Bell um Alexander, einn nemanda Öskjuhlíðarskóla, var sýnd í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins á hverjum degi klukkan 13-17.

Í tengslum við sýninguna gaf Þjóðminjasafnið út samnefnda sýningarbók með ljósmyndum Mary Ellen Mark og hlaut hún tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2007.

Ferill Mary Ellen Mark er afar fjölbreyttur. Meðal kunnustu verkefna hennar eru líf heimilislausra ungmenna í Seattle, starf líknarstofnunar móður Teresu í Kolkata, vændishús í Mumbay og lífið í indversku fjölleikahúsi.

Mary Ellen Mark kom til Íslands árið 2006 og myndaði meðal annars nemendur í Öskjuhlíðarskóla en hún heillaðist mjög af því starfi sem þar er unnið. Í kjölfarið leitaði Þjóðminjasafn Íslands eftir samstarfi við hana um að ljósmynda líf fatlaðra barna á Íslandi. Þetta metnaðarfulla verkefni hlaut meðal annars styrk úr Menningarsjóði Glitnis. Árangurinn er sýningin Undrabörn og samnefnd sýningarbók.

Undraborn-mynd-eftir-Mary

Myndataka Mary Ellen Mark fyrir sýninguna Undrabörn fór aðallega fram í Öskjuhlíðarskóla, Safamýrarskóla og Lyngási í góðri samvinnu við foreldra, kennara og skólastjórnendur sem og börnin sjálf veturinn 2006 til 2007. Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri Myndlistaskóla Reykjavíkur var fengin til að velja myndir barnanna á sýningunni.

Mary Ellen byrjaði að taka myndir af skólastarfinu strax fyrsta daginn; hún er sannfærð um að fólk eigi að vita frá upphafi hvað hún sé að gera. "Það á ekki að vera með neitt laumuspil. Það er mikilvægt fyrir mig að taka myndavélina strax fram," segir ljósmyndarinn.

"Þessi skóli er dásamlegur," sagði hún að fyrstu heimsókninni lokinni. "Ég upplifði sterkt að börnin fá að vera þau sjálf og það dylst engum að fólkið sem vinnur þarna elskar börnin. Kennurunum þykir vænt um nemendurna og persónuleika þeirra, þeir eru opnir fyrir hugmyndum þeirra og skammast sín ekki fyrir þá. Ég hef komið í stofnanir sem annast fatlaða, þar sem forstöðufólkið skammast sín og vill helst ekki að maður hitti skjólstæðinga þeirra. Hér eru börnin virt fyrir það hver þau eru, allir eru fullir af ást og hlýju og þess vegna er umhverfið svo notalegt," sagði hún.

Mary Ellen varð strax gagnkunnug einstökum nemendum og myndaði samband við þá frá fyrsta degi. Hún fylgdist ekki með lífi barnanna heldur tók þátt í því. Fór með þeim ofan í sundlaugina og eyddi frímínútum á skólalóðinni í tíu stiga frosti.

Ljósmyndir Mary Ellen Mark sýna hvernig líf barnanna innan veggja skólanna er í raun. Þetta er sannferðug frásögn ljósmyndarans sem kveðst afar þakklát fyrir þann tíma sem henni var leyft að eyða þar með fötluðum nemendunum. "Þetta var erfitt verkefni að mynda, einfaldlega vegna þess að það er mjög auðvelt að misnota þetta traust," segir hún. "En þetta er erfitt líf, þrátt fyrir frábæran aðbúnaðinn. Ég vil ekki láta líta út fyrir að þetta sé auðvelt og allir brosandi. Því þetta er verulega erfitt."

Á meðan Mary Ellen ljósmyndaði vann eiginmaður hennar, hinn þekkti kvikmyndagerðarmaður Martin Bell, heimildamynd um einn nemanda Öskjuhlíðarskóla, Alexander Viðar Pálsson en allt frá upphafi verkefnisins fangaði Alexander athygli og aðdáun hjónanna. Hvunndagshetjan Alexander var sá sem í raun kveikti áhuga allra á verkefninu og ber mynd Martins að sjálfsögðu nafn hans; Alexander.

Þjóðminjasafn Íslands leggur áherslu á að endurspegla hinar fjölbreyttu hliðar sögu og samfélags. Það er mikilvægur þáttur í starfi safnsins að bjóða upp á sýningar sem hreyfa við áhorfendum og jafnvel vekja til umhugsunar um málefni er lúta að fjölbreyttu mannlífi og umhverfi í nútíð ekki síður en fortíð. Sívaxandi þáttur í starfsemi safnsins er einmitt skráning á samtímasögu og menningu.

Á sýningunni Undrabörn er horfst í augu við börnin og aðstæður þeirra með hjálp linsunnar. Við horfumst um leið í augu við okkur sjálf, okkar eigin viðhorf og tilfinningar. Við skynjum hve börnin eru undursamleg og einstök, eins og öll börn, sannkölluð undrabörn

Sýningin Undrabörn var tileinkuð lífi og starfi fatlaðra barna á Íslandi.