Eldri sýningar

Undrabörn

Ljósmyndir Ívars Brynjólfssonar

  • 9.9.2007 - 3.2.2008, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Á sýningunni Undrabörn var brugðið upp áhugaverðri myndaröð eftir Ívar Brynjólfsson á Veggnum. Myndir hans sýna sérstaklega umhverfi hinna fötluðu barna í Öskjuhlíðarskóla, Safamýrarskóla og Lyngási.

Ívar beitir þarna sams konar nálgun og í fyrri verkefnum sínum. Hann reynir að lýsa umhverfinu og því sem hann sér innan skólanna á sem skýrastan hátt. Gegnum myndir hans verður starfsemin sem fram fer í rýminu sýnileg án þess þó að fólkið sjálft sé sýnt. "Það er oft forvitnilegt að skoða ljósmyndir af því sem fólk skilur eftir sig," segir Ívar. "Það segir ýmislegt um fólkið."

Nálgun Ívars er ólík nálgun Mary Ellen Mark sem horfir á fólkið sjálft. Það var áhugavert að sjá þessar myndir saman á sýningunni Undrabörn.

Ívar Brynjólfsson hefur getið sér gott orð fyrir ljósmyndir þar sem hann beinir sjónum á formrænan hátt að mannvirkjum og umhverfi. Árið 2006 kom út bókin Specimina Commercii með ljósmyndum Ívars, látlaus bók sem ekki hlaut mikla athygli. Specimina Commercii er þó full af merkilegum myndum af uppstillingum umhverfisins: dekk sem hlaðast á tilviljanakenndan hátt í skúlptúra á dekkjaverkstæði, hjól sem standa til sýnis í grind verslunar, bækur sem hallast á ýmsan hátt í hillum svo fátt eitt sé nefnt. Ljósmyndarinn kemur auga á óvænt og tilviljanakennd mynstur í hversdagslegu umhverfi, nær að fanga þau á mynd og gera úr þeim listaverk.

Mary Ellen Mark heillaðist mjög af ljósmyndum Ívars Brynjólfssonar og eftir að hafa séð Specimina Commercii lagði hún til að hann tæki myndir af skólaumhverfi barnanna sem sýndar yrðu sérstaklega með ljósmyndum hennar af nemendum og starfsfólki skólanna á sýningunni Undrabörn.