Eldri sýningar

Undrabörn

Myndverk barnanna

  • 9.9.2007 - 3.2.2008, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Á sýningunni Undrabörn mátti sjá ýmis myndverk eftir undrabörnin sjálf, fyrrverandi og núverandi nemendur Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla. Í báðum skólum er lögð mikil áhersla á að örva börnin með markvissri handavinnu, meðal annars í myndlist.

Nemendur skapa myndverk úr fjölbreytilegum efnum og fá allan þann stuðning sem þau þurfa. Þeir vinna verkin sjálf og sköpunarferlið getur tekið langan tíma. Börnin glíma við ýmis konar fötlun og hafa mismunandi getu. Verk þeirra allra bera þó vott um áhuga og natni.

Frjóir og þolinmóðir kennarar og aðstandendur hafa fundið leiðir, efni og aðferðir sem hæfa áhugasviði hvers og eins nemanda. Í verkunum birtast ólíkir persónuleikar listamanna sem ekki eru uppteknir af því að vera eins og "hinir". Í sköpun sinni eru börnin frjáls og sérstök og fá að njóta sín á eigin forsendum.

Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík, valdi verkin á sýninguna.

Sýningin Undrabörn í Þjóðminjasafni Íslands var tileinkuð lífi og starfi fatlaðra barna á Íslandi. Hinn virti bandaríski ljósmyndari Mary Ellen Mark tók myndir af börnunum sjálfum, kvikmyndagerðarmaðurinn þekkti Martin Bell gerði heimildamyndina Alexander um eitt af börnunum í Öskjuhlíðarskóla og íslenski ljósmyndarinn Ívar Brynjólfsson myndaði sérstaklega umhverfi barnanna.