Vinnandi fólk - ASÍ í 100 ár
Á sýningunni eru ljósmyndir sem veita innsýn í starfsemi Alþýðusambandsins sem fagnar 100 ára afmæli sínu um þessar mundir.
Ljósmyndirnar segja sögu þess fólks sem myndaði hreyfinguna og vakin er athygli á kjörum þess og kjarabaráttu, aðbúnaði á vinnustöðum og vinnuumhverfi. Sjónum er beint að vinnutíma verkafólks, vinnu barna og jafnrétti karla og kvenna. Þá er brugðið upp myndum af frístundum verkafólks, húsnæði sem því stóð til boða og hvernig félagsleg þjónusta efldist smám saman.
Á sýningunni birtast margir fulltrúar þeirra ólíku hópa sem byggðu upp verkalýðshreyfinguna.
Þá er veitt innsýn í samfélag sem tók örum breytingum; frá því að vera að mestu leyti í framleiðslu á hráefni og matvælum til meiri verkaskiptingar og fjölbreyttari atvinnuhátta.
Texta-og sýningarhöfundur er Sumarliði R. Ísleifsson, sýningarstjóri Sigurlaug Jóna Hannesdóttir.
Ljósmyndir, skjöl og kvikmyndir á sýningunni eru úr Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni en auk þess frá Minjasafninu á Akureyri, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Kvikmyndasafni Íslands, Þjóðskjalasafni Íslands, Ljósmyndasafni Siglufjarðar, Ljósmyndasafninu á Ísafirði og Ljósmyndasafni Vestmannaeyja.
Sýningin byggir á Sögu Alþýðusambands Íslands eftir Sumarliða Ísleifsson sagnfræðing sem einnig er höfundur sýningatexta. Sýningin mun standa til 22. maí.